Erlent

Spitfire flugkonur heiðraðar

Óli Tynes skrifar
June Howden í Spirfire orrustuflugvél. Hún er nýlátin, 88 ára að aldri.
June Howden í Spirfire orrustuflugvél. Hún er nýlátin, 88 ára að aldri.

Breskar konur sem ferjuðu Spirfire orrustlflugvélar í síðari heimsstyrjöldinni fá nú loks viðurkenningu fyrir störf sín.

Sérstakt heiðursmerki verður slegið handa þeim. Gordon Brown, forsætisráðherra, tilkynnti þetta á þingi í dag, við fagnaðarlæti þingmanna.

Bretar áttu mjög undir högg að sækja lengi framan af styrjöldinni. Það var þörf fyrir hvern einasta orrustuflugmann til þess að verjast árásum þýska flughersins.

Það voru því fáir flugmenn eftir til þess að ferja nýjar flugvélar fram í fremstu víglínu. Sem og flugvélar sem voru að koma úr viðgerð eftir að hafa laskast í orrustum.

Þá var leitað til kvenna, sem áður en yfir lauk ferjuðu tugþúsundir flugvéla fyrir flugherinn. Oft við skelfilegar aðstæður.

Þær höfðu hvorki talstöðvar né leiðsögutæki og urðu að treysta á Guð og lukkuna í lágflugi, til þess að finna áfangastaðinn. Margar þeirra fórust. En hinar héldu áfram.

Þessar flugkonur ferjuðu vélar af ýmsum stærðum og gerðum. Allt frá eins hreyfils Spitfire orrustuflugvélum til fjögurra hreyfla Lancaster sprengjuflugvéla.

Ein þeirra var June Howden, sem situr í Spitfire vél á meðfylgjandi mynd.

June ferjaði flugvélar af 22 mismunandi tegundum. Það var enginn tími til þess að kenna konunum á hverja flugvélategund fyrir sig.

Þær fengu bara tveggja blaðsíðna bækling með helstu leiðbeiningum. Og þær lásu bæklinginn meðan þær flugu vélunum á áfangastað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×