Erlent

Mótmælendur á þaki breska þingsins

Hópur mótmælenda sem er á móti stækkun Heathrow flugvallar í London hefur komist upp á þak breska þingsins í Westminstar. Hópurinn Plane Stupid sem berst gegn hlýnun jarðar hefur komið fyrir borðum með slagorðum á, meðal annars gegn því að þriðja flugbrautin verði byggð.

Í dag fer fram lokaumræða á þinginu um stækkun Heathrowflugvallar. Þá er spurningatími forsætisráðherrans nú í hádeginu.

Hópurinn segist hafa undir höndum trúnaðarskjöl sem fengin voru eftir nýjum lögum um frelsi til upplýsinga. Í þeim komi fram að ríkisstjórnin hafi þegar ákveðið að byggja þriðju flugbrautina og sjöttu flugvallarbygginguna á flugvellinum.

Leo Murray einn mótmælenda talaði við Sky fréttastofuna af þaki þinghússins. Hann sagði að hópurinn hefði fengið sér tebolla á kaffistofunni og síðan tekið lyftuna upp á þakið. Atvikið hefur vakið áleitnar spurningar um öryggi en lengi hefur verið óttast að þingið gæti orðið skotmark hryðjuverkamanna.

"Við erum komin að rótum lýðræðis til að benda á hversu fáránlega ólýðræðisleg þessi ríkisstjórn er orðin," sagði hann og benti á að áætlanirnar væru í algjöru ósamræmi við stefnu Breta í loftslagsmálum.

Fyrir tveimur dögum mótmæltu Greenpeaceliðar á Airbus A320 farþegaflugvél á Heathrow gegn stækkun vallarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×