Erlent

Karl Bretaprins: Mikill léttir að fá Harry heim

Harry, Karl og William yfirgefa Brize Norton herstöðina.
Harry, Karl og William yfirgefa Brize Norton herstöðina. MYND/AFP

Karl Bretaprins og Vilhjálmur sonur hans fögnuðu Harry prins þegar hann sneri aftur frá Afghanistan í dag. Harry hafði sinnt herskyldu í Helmand frá því í desember. Fréttir í fjölmiðlum urðu þess valdandi að hann var sendur í skyndingu til Bretlands fjórum vikum áður en áætlað hafði verið.

„Eins og þið getið ímyndað ykkur er það augljóslega mikill léttir hvað mig varðar að fá hann heim í heilu lagi," sagði Karl eftir komu Harry á Brize Norton herstöðina í Oxfordshire. Karl sagðist vera mjög stoltur af því sem Harry hefði gert en tók fram að hann skildi hvernig það væri fyrir margar fjölskyldur og ástvini hermanna sem sinna skyldum sínum á slíkum svæðum.

Hann sagði ennfremur að bæði Harry og konungsfjölskyldan væru vonsvikin yfir því að prinsinn hefði ekki getað klárað sex mánaða tímabil vegna þess að fjölmiðlar hafi komist á snoðir um veru hans í Afganistan.

Harry spjallaði við félaga sína eftir að hann lenti á flugvellinum, en talaði ekki við fréttamenn. Hann er þriðji í röðinni til að erfa krúnuna.

Ýmis hryðjuverkasamtök hafa gagnrýnt veru Harry í Afganistan. Á þekktri vefsíðu stuðningsmanna al-Kaída er hvatt til þess að honum verði rænt og hann tekinn af lífi. Á annarri var farið fram á að hann yrði drepinn og vídeó af aftökunni yrði sent konungsfjölskyldunni.

Áform um að senda prinsinn til Írak í fyrra runnu út í sandinn þegar leyniþjónustan komst á snoðir um áætlanir um að hann yrði drepinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×