Viðskipti erlent

Moskva er nú orðin höfuðborg milljarðamæringa

Moskva er nú orðin höfuðborg milljarðamæringa í dollurum talið en alls búa nú 74 slíkir í borginni

Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Forbes tímaritsins sem birtir nú árlega lista sína um þá ríku í heiminum. New York var löngum sú borg þar sem flestir milljarðamæringar heimsins búa. New York er í öðru sæti á listanum yfir flesta milljarðamæringa en þar búa nú 71 af þeim. Í þriðja sæti á lista Forbes er svo London með 36 milljarðamæringa.

Að sögn Forbes er Rússland aðalfréttin hjá þeim í ár því milljarðamæringar þar spretta nú upp með miklum hraða. Og Forbes finnst það heillandi að hver einasti þeirra hefur auðgast á eigin hæfileikum. Enginn þeirra hafi erft auðæfi sín og meðalaldurinn hjá þeim sé aðeins 46 ár.

Heildarfjöldi milljarðamæringa í Rússlandi er nú 87 talsins og þar með hefur landið næstflesta slíka í heiminum en þá stöðu hafði Þýskaland áður. Flesta milljarðamæringa er eftir sem áður að finna í Bandaríkjunum eða 469 talsins.

Meðal þeirra sem eru á listanum yfir ríkustu menn Rússlands er Íslandsvinurinn og eigandi Chelsea, Roman Abramovich en eigur hans eru metnará 23,5 milljarð dollara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×