Innlent

Skýrslutökur vegna fjármála Byrgisins í mánuðinum

Guðmundur Jónsson hefur þegar verið ákærður fyrir kynferðisbrot.
Guðmundur Jónsson hefur þegar verið ákærður fyrir kynferðisbrot. MYND/GVA

Skýrslutökur hefjast í þessum mánuði hjá Ríkislögreglustjóra vegna rannsóknar á meintum efnahagsbrotum í tengslum við rekstur Byrgisins.

Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra, segir að skýrslur verði þá meðal annars teknar af Guðmundi Jónssyni, fyrrverandi forstöðumanni Byrgisins, vegna málsins.

Ríkislögreglustjóri ákvað að rannsaka málið í kjölfar svartrar skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjármál Byrgisins sem birt var í byrjun síðasta árs. Niðurstöður hennar benda til að ólöglega hafi verið staðið að rekstrinum og að fjármunir sem sannanlega hafa runnið til stjórnenda og starfsmanna Byrgisins séu langt umfram það sem fram komi í bókhaldi eða ársreikningum félagsins. Var um tugi milljóna króna að ræða.

Fram kom í fréttum á síðasta ári að Guðmundur Jónsson gæti átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi verði hann sakfelldur fyrir fjárdrátt og umboðssvik, en Byrgið naut styrkja frá ríkinu á árunum 1998-2006.

Guðmundur hefur þegar verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum sem voru skjólstæðingar hans hjá Byrginu. Er honum gefið að sök að hafa notfært sér andlega annmarka kvennanna til þess að hafa við þær samræði eða önnur kynferðismök. Upp komst um málið eftir umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kompáss í desember 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×