Erlent

Dvergflóðhesturinn lifir af stríð, skógarhögg og veiðiþjófa

Þrátt fyrir tvö borgarastríð, stóraukið skógarhögg og veiðiþjófa er hinn sjaldgæfi Dvergflóðhestur enn á lífi í Afríkuríkinu Líberíu.

Dýraverndunarsinnar höfðu óttast að Dvergflóðhesturinn væri útdauður í Líberíu en nýlega náði hópur breskra vísindamanna myndum af flóðhestum í landinu.

Dvergflóðhestar eru smávaxin útgáfa af flóðhestum og líkjast þeim í einu og öllu að frátalinni stærðinni. Dvergflóðhesturinn er mjög fælið dýr og fer yfirleitt huldu höfði í frumskógum þeim sem hann lifir í. Svæðið nær yfir Líberíu, Sierra Leone og Gíneu.

Talið er að aðeins 3.000 Dvergflóðhestar séu enn á lífi á fyrrgreindu svæði. Og það þykir kraftaverki líkast að dýrið hafi lifað af hörmungar þær sem hrjáð hafa Líberíu á undanförnum árum. Borgarastríðin tvö hafa leiddu til þess að íbúarnir drápu og átu öll þau dýr sem þeir komust yfir. Þar að auki hefur skógarhögg þrengt mjög að Dvergflóðhestinum sem og veiðiþjófar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×