Innlent

Spasský spurði um laust pláss við hlið Fischers

Skákmeistarinn Boris Spasský spurði hvort laust pláss væri við hlið Bobby Fischers í kirkjugarðinum að Laugardælum um leið og hann lagði blómsveig að leiði hans í dag.

Nafn Fischers verður ætíð tengt nafni Spasskýs, sem nú fékk loks tækifæri til að heiðra minningu þessa frægasta keppunautar síns við skákborðið.Tæpir tveir mánuðir eru frá því Fischer lést í Reykjavík þann 17. janúar en hann var grafinn í kyrrþey fjórum dögum síðar að Laugardælum við Selfoss en þangað fór Spassky í dag með blómsveig sem hann lagði að krossinum.

Með Spasský voru einnig skákmeistararnir Vlastimil Hort, Lajos Portisch, Pal Benko, Friðrik Ólafsson og séra William Lombardy, sem var aðstoðarmaður Fischers í einvíginu í Reykjavík árið 1972. Lombardy leiddi minningarstund og saman fóru viðstaddir með Faðir vorið, hver á sinni tungu. Loks flutti hver og einn skákmeistaranna nokkur minningarorð.

Þegar aðrir úr hópnum gengu til kirkju varð Spasský eftir hjá gröfinni og það var augljóst að hann komst við á þessari stundu þegar hann kvaddi vin sinn. Hann beygði sig því næst niður að leiðinu, snyrti það og dustaði snjó af blómum. Loks gekk Spasský til kirkju, fór að altarinu og baðst fyrir. En menn spyrja sig nú hvort það verði hlutskipti Spasskýs að hvíla þarna við hlið Fischers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×