Erlent

Undirferli, sjálfselska og spilling grasserar í maurabúum

Nýjar rannsóknir benda til að undirferli, sjálfselska og spilling grasseri í maurabúum en hingað til hefur lífið þar verið talið fyrirmynd samvinnu og samfélagslegrar hegðunar.

Vísindamenn hafa uppgvötvað að sumir karlkynsmaurar sjái til þess að þeirra gen eigi mesta möguleikana á að lifa áfram þegar kemur að því að frjógva egg drottningarinnar í búinu.

Rannsókn sem gerð var á fimm búum laufskeramaura leiddi þetta í ljós en stuðst var við DNA-fingraför. Í ljós kom að möguleikar lirfunnar á því að breytast í drottningu voru algjörlega háðir því hver faðir hennar var. Karlmaurarnir beita ýmsum brögðum til að tryggja að þeirra lirfur breytist í drottningar.

Hingað til hefur það verið álit vísindamanna að fæða ráði mestu um hvaða lirfa breytist í drottningu og hver verður vinnumaur. Sumar lirfur hafi fengið ákveðna fæðu til að svo verði. Hin nýja rannsókn bendir til að svo sé ekki.

Dr. Bill Hughes við Háskólann í Leeds stjórnaði þessari nýju rannsókn. Hann segir að þegar þeir hafi kafað dýpra í málið hafi komið í ljós að það séu átök og svindl í gangi í maurabúunum hvað undaneldið varðar. „Þetta samfélag er gegnsýrt af spillingu og það konunglegri spillingu," segir dr. Hughes í samtali við BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×