Erlent

Jöklar heimsins gætu horfið á áratug

Jöklar heimsins hopa nú sem aldrei fyrr og gætu einhverjir þeirra verið horfnir eftir áratug ef þessi þróun heldur áfram á sama hraða og verið hefur.

Þetta kemur fram í nýju áliti sem Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna sendi frá sér um helgina. Það byggir á rannsókn vísindamanna á 30 jöklum víða um heiminn. Allir þessir jöklar hopuðu á methraða árið 2006.

Umhverfisstofnunin segir að afleiðingar þessa geti orðið skelfilegar einkum á Indlandi þar sem flest stórfljót þess lands fái vatn sitt úr jöklunum í Himalayafjöllum. Vesturströnd Bandaríkjanna gæti einnig orðið illa úti þar sem árnar þar fá vatn sitt að mestu úr jöklum í Klettafjöllunum og Sierra Nevada.

Rannsókn vísindamannana sýnir að jöklarnir 30 hopuðu að meðaltali um hálfa annan metra árið 2006. Mesta skráða ístapið var á Breiðabliksbreiðujöklinum í Noregi sem hopaði um rúma þrjá metra þetta ár. Eini jökullinn sem bætti við sig ís á árinu var Echaurren Norte í Chile.

Achim Steiner forstöðumaður Umhverfisstofnunnar Sameinuðu Þjóðanna segir það lífsnauðsynlegt að fólk taki þessar tölur um minnkandi jökla alvarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×