Erlent

Herferð gegn átröskun á Ítalíu

Óli Tynes skrifar

Íþrótta- og æskulýðsráðherra Ítalíu segir að átröskun sé alvarlegasti geðkvilli sem unga fólkið tekst á við í dag.

Dæmi eru um að ungar stúlkur skiptist á upplýsingum um það á netinu hvernig best sé að framkalla uppköst. Og það er talið að ekki færri en tvær milljónir ungra Ítala þjáist af átröskun í einhverri mynd.

Yfirvöld á Ítalíu hafa nú skilgreint átröskun sem félagslegt neyðarástand og ætla að grípa til aðgerða til þess að hindra frekari útbreiðslu þess.

Það verður meðal annars gert í samvinnu við fjölmiðla og tískufyrirtæki, sem raunar hafa þegar sett sér nokkuð strangar siðareglur.

Þegar hefur verið sett upp sérstök átröskunardeild við Umberto sjúkrahúsið í Róm og ætlunin er að auka aðstoð við átröskunarsjúklinga um allt landið.

Átröskun kemur fram í ýmsu formi, bæði lotugræðgi og lystarstoli. Og afleiðingarnar geta verið skelfilegar.

Auk þess að hjálpa sjúklingum að takast á við sín andlegu veikindi verður einnig að hjálpa þeim að takast á við líkamlega þáttinn.

Sá þáttur er ekki bara að líkaminn sé alltof horaður, þótt það sé nógu slæmt í sjálfu sér.

Að kasta upp mörgum sinnum á dag eykur sýrumyndun í munninum gríðarlega. Tennurnar í slíku fólki hreinlega eyðast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×