Erlent

Barist um Basra

Guðjón Helgason skrifar
Liðsmaður í Mahdi her róttæka sjíaklerksins Moqtada al-Sadr búinn undir átökin í Basra.
Liðsmaður í Mahdi her róttæka sjíaklerksins Moqtada al-Sadr búinn undir átökin í Basra. MYND/AP

Baráttan um Basra - þriðju stærstu borg Íraks - hefur harnað á síðustu sólahringum. Forsætisráðherra Íraks er sagður hafa lagt allt í sölurnar svo rótæki sjíaklerkurin al-Sadr nái henni ekki á vald sitt. 150 hafa fallið í átökum síðustu daga og 350 særst.

Basra er hafnarborg. Þar er mikið um viðskipti og verslun. Í næsta nágrenni eru flestar olíuhreinsunarstöðvar landsins. Í Basra er hægt að græða mikið fé og tækifærin mörg. Þeir sem ráða Basra hafa mikið að segja um framtíð Íraks.

Írösk stjórnvöld ætla að gera allt til að koma í veg fyrir að borgin falli í hendur rótæka sjía klerksins Moqtada al-Sadr en liðsmenn í Mahdi-her hans hafa síðustu daga barist við íraska her- og lögreglumenn. Blóðug átök blossuðu upp í dag - fjórða daginn í röð. Bandaríkjamenn tóku beinan þátt í átökunum í fyrsta sinn í nótt þegar þeir gerðu loftárásir á Basra.

Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, hefur framlengt um 10 daga frestinn sem hann gaf herskáum til að leggja niður vopn sín. Stjórnmálaskýrendur segja það annað hvort til marks um að hernaðurinn gangi verr en hann bjóst við eða þá að verið sé að semja bak við tjöldin.

Hvort svo sem er ástæðan þá er al-Maliki sagður hafa lagt framtíð sína í stjórnmálum að veði með aðgerðunum í Basra. Fari allt í handaskol hröklist hann frá völdum og eins og mál standi nú sé alls óvíst að hann hafi sigur.

Flugskeytum hefur verið skotið á græna svæðið í Bagdad síðustu daga - meðal annars í nótt og það þrátt fyrir að útgöngubann sé í gildi í borginni næstu þrjá daga.

Neyðarfundur var haldinn á íraska þinginu í dag en aðeins fimmtungur þingmanna gat setið hann - meirihlutinn komst ekki inn á græna svæðið vegna árása.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×