Erlent

ESB hættir við mozzarella bann

Guðjón Helgason skrifar

Evrópusambandið hefur fallið frá áformum sínum um evrópubann á ítalskan mozzarella ost frá sunnanverðri Ítalíu. Ráðamenn á Ítalíu hafi brugðist rétt við gruni um að ostur frá tilteknum framleiðendum hefði mengast.

Mozzarella osturinn sem er framleiddur í Campania héraðinu í kringum Napolí á sunnanverðri Ítalíu hefur reynst mengaður eiturefninu díoxíni, sem veldur krabbameini. Evrópusambandið krafði Ítala um skýrslu.

Ítalar bönnuðu sölu á ostum frá 25 fyrirtækjum þar sem díoxín í ostum hafði mælst yfir hættumörkum. Stjórnvöld í Róm lofa ströngu eftirliti með framleiðslunni og Evrópusambandið hætti við evrópubann á innflutning og sölu á mozzarella osti frá svæðinu.

Buffalóbændur á Ítalíu, sem framleiða mozzarella ostinn, segja að uppnámið sé alls óþarft og að fjölmiðlar hafi þyrlað upp óþarfa moldviðri. Þeir mæli díoxínmagnið reglulega, þetta sé efni sem finnist um allt í náttúrunni, og líklega sé kastljósið á þeim vegna umræðna um sorphirðuvandann í Napolí undanfarna mánuði.

Ekki eru þó allir rólegir. Pizzugerðarmaðurinn Domenico sagði við fréttamenn að hann ætlaði ekki að borða mozzarellaost á meðan enn væri að hans mati óvissa í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×