Viðskipti erlent

Frakkar tóku sænska vodkann

Vodkaflöskur undir merkjum Vin & Sprit, sem hefur verið seldur til franska líkkjörrisans Pernod Ricard.
Vodkaflöskur undir merkjum Vin & Sprit, sem hefur verið seldur til franska líkkjörrisans Pernod Ricard. Mynd/AFP

Franski líkkjörarisinn Pernod Ricard bar sigur úr býtum í miklu tilboðskapphlaupi um sænska áfengisframleiðandann Vin & Sprit, sem framleiðir hinn þekkta Absolut-vodka. Kaupverð var 55 milljarðar sænskra króna, jafnvirði rúmra 725 milljarða íslenskra, og var þetta stærsta einkavæðing sænska ríkisins til þessa.

Baráttan um ríkisrekna áfengisframleiðandann hefur staðið yfir í marga mánuði og hefur marga fýst í vodkadropann. Þar á meðal var Diageo, einn af umsvifamestu áfengisframleiðendum í heimi, Bacardi, sænska fjárfestingafélagið Investor, sem Wallenberg-fjölskyldan stýrir, og lífeyrissjóðurinn Fjarde AP.

Um 2.500 manns starfa hjá Vin & Sprit í tíu löndum og nam velta fyrirtækisins rúmum níu milljörðum sænskra króna. Mikil áhersla hefur verið á að halda stærstum hluta framleiðslunnar í Svíþjóð, að sögn breska ríkisútvarpsins.

Absolut er fjórði vinsælasta sterka áfengistegundin í heiminum á eftir Smirnoff, rommi frá Bacardi og viskíinu undir merkjum Johnnie Walker.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×