Innlent

Þáði kakó og stal bíl

Þjófurinn hreifst af þessum silfraða Golf.
Þjófurinn hreifst af þessum silfraða Golf.
Víða er hægt að gera kostakaup á bílum þessa dagana. Það dugði þó ekki manni sem kom til að skoða bíla hjá Bílahúsinu á Laugardag. Hann vildi fá sinn frítt.

„Menn launa misjafnlega," segir Guðni Daníelsson framkvæmdastjóri Bílahússins. Hann segir afar venjulegan ungan mann hafa komið inn á söluna og viljað fá að reynsluaka bíl sem þar var til sölu. Hann þáði kakó og bakkelsi, og hrósaði hvoru tveggja í hástert. Sagði jólakökuna góða og Bílahúsið gott heim að sækja.

Hann launaði hinsvegar veitingarnar með því að með því að hverfa á braut á bílnum, og hefur ekki sést síðan. Bíllinn er íðilfagur ljósgrár VW Golf árgerð 2003 og skartar bæði topplúgu og álfelgum. Skráningarnúmer bílsins er JY-409.

Sést hefur til bílsins á Akranesi, en þeir sem vita nánar um ferðir hans eru beðnir að hafa samband við Bílahúsið í síma 421 8808 eða lögreglu. Guðni segir fundarlaun í boði, og að sjálfsögðu verði þjófnum boðið upp á meira kakó ef hann skilar bílnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×