Erlent

Þrjátíu ár frá aftöku Alis Bhutto

Óli Tynes skrifar
Zulfiquar Ali Bhutto var faðir Benazir Bhutto sem var myrt í aðdraganda forsetakosninganna í Pakistan í desember síðastliðnum. Sjálf var Benazir tvisvar forsætisráðherra Pakistans.

Meðan Zulfiquar Ali Bhutto stýrði Pakistan kom hann á þingræði og barðist fyrir því sem kalla mætti islamskan sósíalisma. Hann vann yfirburðasigur í kosningum árið 1977 en ásakanir um kosningasvik og spillingu leiddu til upplausnar og átaka.

Í júlí árið 1977 rændi hershöfðinginn Zia ul-Haq völdum og lét handtaka Bhutto. Hann var svo tekinn af lífi tveim árum síðar. Sjálfur fórst Zia ul-Haq í dularfullu flugslysi árið 1988. Með honum fórust fleiri háttsettir hershöfðingjar og bandaríski sendiherrann í Pakistan.

Miklar samsæriskenningar fóru á kreik eftir flugslysið og voru bæði bandaríska leyniþjónustan og sú rússneska bendluð við það. Aldrei hefur þó neitt sannast í því efni.

Ekkill Benazir Bhutto, Asif Ali Zardari stýrir nú Pakistanska þjóðarflokknum, ásamt syni þeirra. Flokkurinn fékk flest sæti í þingkosningum fyrr á þessu ári og myndaði samsteypustjórn með Nawaz Sharif, sem er pólitískur keppinautur flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×