Viðskipti erlent

Hagnaður Alcoa dregst saman um helming

Alain Belda, forstjóri Alcoa.
Alain Belda, forstjóri Alcoa.

Hagnaður bandaríska álrisans Alcoa, sem meðal annars rekur álverið í Reyðarfirði, var helmingi minni á fyrstu þremur mánuðum þessa árs en á sama tíma í fyrra.

Hagnaðurinn, fyrir skatta og gjöld, nam 303 milljónum dala, jafnvirði 21,8 milljörðum íslenskra króna, samanborið við 662 milljónir dala á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.

Hagnaður á hlut nam 37 sentum nú samanborið við 75 sent á hlut í fyrra. Þetta er talsvert undir væntingum greinenda sem spáðu hagnaði upp á 44 sent á hlut vegna afkomunnar á fjórðungnum.

Tekjur námu 7,4 milljörðum dala á tímabilinu, sem er hálfum milljarði dala minna en í fyrra. Þetta er lítillega yfir væntingum.

Hátt verð á raforku og hrávöru samhliða veikingu dals spilar inn í og fór verðþróunin út í verðlagningu á áli, að sögn fréttastofu Reuters sem bendir á að sökum þess að heimsmarkaðsverð á áli hafi farið hækkandi muni það skila sér í betri afkomu álrisans síðar á árinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×