Erlent

Suður Kórea eignast sinn fyrsta geimfara

Suður-Kórea eignast sinn fyrsta geimfara í dag. Þá verður hinni 29 árs gömlu Yi So skotið á loft í Soyuz geimfari á leið til alþjóðlegu geimstöðvarinnar

Yi So er verkfræðingur að mennt og hún var valin úr hópi 36.000 umsækjenda til að taka þátt í þessari sögulegu geimferð. Raunar var hún varamaður í byrjun fyrir ferðina en sá sem átti að fara, Ko San, var dæmdur úr leik vegna brots á reglum í þjálfunarmiðstöð fyrir ferðina.

Soyuz-eldflauginni verður skotið á loft frá geimmiðstöðinni í Kazakhstan nú klukkan sextán mínútur yfir ellefu. Með Yi So í ferðinni verða tveir rússneskir geimfarar. Yi So mun dvelja 10 daga um borð í alþjóðlegu geimstöðinni og vinna að ýmsum vísindatilraunum þar.

Á blaðamannafundi fyrir ferðina var Yi So spurð að því hvað væri það fyrsta sem hún ætlaði að gera þegar hún kæmi um borð í geimstöðina. Hún svaraðui því til að fyrst af öllu ætlaði hún að hrópa vááá. Hún sagði síðan að hún vonaðist til að geimferð hennar myndi hjálpa til við að liðka samskiptin milli Suður og Norður Kóreu og að í framtíðinni yrði öll kóreanska þjóðin í sameiningu hamingjusöm með ferð hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×