Tónlist

Frábærar viðtökur í New York

Ólöf Arnalds á tónleikum sínum í klúbbnum Le Poisson Rouge í New York. Ferð hennar til borgarinnar heppnaðist einkar vel.
Ólöf Arnalds á tónleikum sínum í klúbbnum Le Poisson Rouge í New York. Ferð hennar til borgarinnar heppnaðist einkar vel. MYND/Gabi Porter

Ólöf Arnalds spilaði nýverið á þrennum tónleikum í New York. Tónlistarsjóðurinn Kraumur og íslenski konsúllinn í New York lögðu Ólöfu lið og ferðin tókst með eindæmum vel.

Fyrstu tónleikarnir voru á tónlistarhátíð á vegum útvarpsstöðvarinnar East Village Radio þar sem Boris og Mark Ronson komu einnig fram. Næst spilaði Ólöf í tónlistarklúbbnum Le Poisson Rouge með Skúla Sverrissyni og fluttu þau lög af plötum sínum Sería og Við og við.

Uppselt var á tónleikana og fengu þeir frábæra dóma á hinum ýmsu vefmiðlum og bloggsíðum. Hinn virti útvarpsmaður John Shaefer á WNYC gerði plötum Ólafar og Skúla jafnframt hátt undir höfði og lýsti yfir áhuga á að bjóða Ólöfu í einn af þáttum sínum, New Sounds, þar sem upprennandi tónlistarmenn eru kynntir til sögunnar.

Lokatónleika ferðalagsins hélt Ólöf með Sam Amidon og Kríu Brekkan. Hlutu þeir mjög góða dóma í Paste Magazine, sem hafði áður valið Við og við í 38. sæti af hundrað bestu plötum síðasta árs. Ólöf Arnalds vinnur nú að næstu plötu auk þess sem hún mun spila á Womex-heimstónlistarhátíðinni sem verður haldin í Sevilla um næstu mánaðamót. Verður hún fyrsti íslenski tónlistarmaðurinn til að spila á hátíðinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.