Erlent

Uppgjafahermenn reiðir út í Time

Óli Tynes skrifar

Bandarískir uppgjafahermenn sem börðust á japönsku eynni Iwo Jima í síðari heimsstyrjöldinni eru öskureiðir út í vikuritið Time. Nýjasta hefti blaðsins er tileinkað loftslagsbreytingum.

Og á forsíðunni er eftirlíking af einni frægustu ljósmynd styrjaldarinnar. Það er þegar bandarískir hermenn reistu bandaríska fánann á Iwo Jima. Á þessari forsíðu er búið að skipta fánanum út fyrir tré.

Orrustan tók 35 daga og yfir 26 þúsund bandarískir hermenn féllu eða særðust. Af 21 þúsund japönskum hermönnum sem voru á eynni féllu 20.703. Aðeins 216 voru teknir til fanga.

Donald Mates barðist á Iwo Jima og honum finnst það stórkostlega móðgandi að leggja orrustuna að jöfnu við loftslagsbreytingar, sem hann segir að alls ekki allir séu sammála um að sé mikil ógn.

Mates særðist alvarlega í orrustunni og það þurfti margar aðgerðir næstu þrjátíu árin til að tína úr honum öll sprengjubrotin.

John Keith Wells, var lautinant og foringi herflokksins sem reisti fánann á Iwo Jima. Hann er heldur ekki hrifinn af forsíðu Time.

Hann sagði í blaðaviðtali að loftslagsbreytingarnar væru brandari. Hann sagði jafnframt að þeir félagar væru alveg til í að stinga tré upp í afturendann á einhverjum, ef það væri talið koma að gagni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×