Viðskipti erlent

JJB Sports nær skammtíma samningi við lánadrottna

Verslunarkeðjan JJB Sports hefur náð skammtíma samningi við lánadrottna sína að því er segir á Bloomberg fréttaveitunni. Exista á rúmlega 14% hlut í JJB Sports sem rekur 400 verslanir með íþróttaföt og vörur í Bretlandi.

JJB Sports gerir ekki ráð fyrir að ná væntingum sínum um hagnað á reikningsárinu nema að salan í janúar verði góð að því er segir í tilkynningu frá keðjunni. Raunar hefur salan hjá keðjunni minnkað um tæp 9% á síðustu fimm mánuðum.

Hlutir í JJB Sports hafa lækkað um 92% á árinu og voru komnir niður í rúm 10 pens síðdegis í gær. Það þýðir að markaðsvirði félagsins er 26 milljón pund eða um 4,5 milljarðar kr. Hinsvegar nema skuldir félagsins tæpum 60 milljónum punda eða meir en tvöfalt umfram eignir. Það hefur áður komið fram að Exista telur hlut sinn í félaginu verðlausan sem stendur.

Samkvæmt fréttinni halda viðræður JJB Sports áfram við lánadrottna félagsins um frekari skuldbreytingar og endurskipulagningu félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×