Hljóðupptaka af símtali á milli Kelly Fisher fyrirsætu og fyrrverandi kærasta hennar Dodi Al Fayed var lögð fyrir réttarrannsóknina á dauða Díönu prinsessu í gær. Í símtalinu sem fyrirsætan tók upp segir hún að Dodi að hafi flogið með hana til St. Tropez þar sem hún hefði mátt dúsa í bát á daginn á meðan hann gerði sér dælt við Díönu. Síðan hafi hann eytt nóttunum með henni.
Fisher sagði að hún hefði tekið símtalið upp í ágúst 1997, tveimur vikum áður en Dodi og Díana létust í bílslysinu í Alma göngunum í París.
Afrit 20 mínútna símtalsins var lesið fyrir kviðdóminn.
Fisher heldur því fram að hún og Dodi hafi verið trúlofuð. Hún ásakaði hann um að yfirgefa hana fyrir prinsessuna. Í símtalinu sagði hún að Dodi hefði talað um brúðkaup við hana á meðan hann var í fríi með Díönu. Þegar hann hefði sagt að sambandi þeirra væri lokið sagði hún: „Við vorum saman allan tímann og þú vissir það… þú sagðir mér að þér væri ekki einu sinni vel við hana, af hverju líkar þér allt í einu við hana núna?"
Upptakan grefur undan fullyrðingum Mohaned al Fayed um að sonur hans og Díana hefðu verið við það að tilkynna um trúlofun sína þegar þau létust.