Innlent

Þorgerður Katrín kallar eftir stöðugleika

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir ljóst að umræða um tengsl Íslendinga við Evrópusambandið verði ekki lengur háð á sömu forsendum og verið hafi til þessa.

Þetta kemur fram í grein hennar í Fréttablaðinu í dag. Hún segir að sjálfstæðismenn hafi ávallt sagt að stefna þeirra eigi að ráðast af köldu mati á því hvar og hvernig hagsmunum Íslands sé best borgið til lengri tíma. Umhverfið sé nú breytt, forsendur hafi breyst. Breyttar forsendur kalli á endurnýjað hagsmunamat.

Þorgerður segir enn fremur að við blasi, að sú peningamálastefna sem Íslendingar hafi treyst á undanfarin ár hafi ekki skilað þeim árangri sem til var ætlast, svo vægt sé til orða tekið. Háir stýrivextir Seðlabankans við þær aðstæður sem nú séu uppi í íslensku samfélagi séu eins og öfugmælavísa. „Við verðum að endurheimta þann stöðugleika sem hér ríkti og grípa til þeirra ráða sem nauðsynleg kunna að reynast í því sambandi. Íslenskt samfélag og íslenskt efnahagslíf þolir ekki aðra rússíbanareið af því tagi sem við höfum nú upplifað," segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×