Lífið

Dyravörður á hóteli hættir eftir 50 ára starf

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Dorchester-hótelið í London.
Dorchester-hótelið í London.

Dyravörður á hinu stjörnum prýdda Dorchester-hóteli í London hefur látið af störfum eftir að hafa staðið vaktina í 50 ár.

Walt Disney, Clint Eastwood, Judy Garland og Tom Cruise eru meðal þeirra fjölmörgu gesta sem Ted Whitcombe hefur boðið velkomna á hótelið góðkunna í London. Hann er orðinn 65 ára gamall og átti sinn síðasta dag í anddyrinu í gær. Enginn hefur starfað lengur á hótelinu en Whitcombe sem hóf störf þar árið 1958.

Hann rifjar upp ýmis skemmtileg atvik úr starfi sínu í spjalli við blaðamann Telegraph, til dæmis þegar minnstu munaði að hljómsveitinni Rolling Stones yrði meinaður aðgangur að hótelinu fyrir fjörutíu árum vegna reglna þess um klæðaburð sem meitlaðar eru í stein. Þá man hann engan gest leiðinlegri en leikkonuna Marlene Dietrich sem gat hvergi gist nema í svítunni á efstu hæð og var að hans sögn ákaflega lítt við alþýðuskap.

Kveðjugjöf hótelsins til Whitcombe var matur og drykkur til æviloka fyrir hann og einn gest á veitingastað hótelsins. Er sá gamli þá alveg sestur í helgan stein? Nei nei, hann byrjar að vinna sem dansari um borð í skemmtiferðaskipi eftir mánaðamótin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.