Erlent

Bretar birta leyniskýrslur um fljúgandi furðuhluti

Breska varnarmálaráðuneytið hefur nú í fyrsta sinn gert opinberar leyniskýrslur um fljúgandi furðuhluti í landinu. Ná skýrslurnar yfir tímabilið 1978 til 1987

Í skýrslum þessum kennir margra grasa. Þar er að finna allt frá sjónarvottum að dularfullum ljósum og hlutum á himni upp í nákvæmar lýsingar á grænum geimverum.

Alls er um að ræða átta skýrslur af alls 200 sem varnarmálaráðuneytið hefur undir höndum en birta á allar þessar skýrslur á næstu fjórum árum.

Sem dæmi um efniviðinn í skýrslum þessum er frásögn manns sem kveðst hafa verið í sambandi við geimverur frá því hann var barn að aldri. Hann heldur því fram að ein þeirra, sem hann kallar Algar, hafi verið myrt af öðrum hópi geimvera um það bil sem Algar ætlaði að hafa samband við bresku ríkisstjórnina.

Í annari skýrslu er að finna frásögn tæplega áttræðs manns sem heldur því fram að hann hafi verið tekinn um borð í geimskip. Inn á milli er svo að finna vitnisburði frá traustum vitnum eins her-, lögreglu- og flugmönnum sem segja frá dularfullum ljósum og hlutum sem þeir hafa ekki getað útskýrt á eðlilegan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×