Innlent

Leita áfram bjarndýrsspora við Hveravelli

Hér má sjá ísbjarnarspor og sólgleraugu sem gefa hugmynd um stærðina.
Hér má sjá ísbjarnarspor og sólgleraugu sem gefa hugmynd um stærðina.

Um tuttugu manna hópur björgunarsveitarmanna og lögreglumanna frá Blönduósi og nærsveitum lagði af stað klukkan átta í morgun að Hveravöllum til þess að kanna hvort þar sé að finna bjarndýraspor.

Eins og fram kom í fréttum í gær sögðust tveir pólskir ferðamenn hafa gengið fram á slík spor á leið sinni frá Hveravöllum inn í Þjófadali og flýttu þeir sér til baka af ótta við að rekast á slíkt dýra. Lögreglan stöðvaði för þeirra og fékk þá til að fara til baka til Hveravalla, ásamt tveimur lögreglumönnum, til að skoða mætti sporin betur. Viðbúnaðaráætlun var sett í gang og þrátt fyrir leit, meðal annars úr lofti, tókst ekki að finna sporin.

Að sögn Vilhjálms Stefánssonar, varðstjóra hjá lögreglunni á Blönduósi, er ætlunin að halda leitinni að sporunum áfram í dag og má reikna með að leitarflokkurinn komi að Hveravöllum um klukkan tíu. Þá verður leitað skipulega á þeirri leið sem ferðamennirnir fóru í gær í átt að Þjófadölum. Talið er að um sé að ræða um tveggja til þriggja kílómetra leið og ekki liggur fyri hversu langan tíma leitin tekur. Ef spor finnast verður tekin ákvörðun um frekari aðgerðir.

Reynist hvítabjörn á ferðinni á hálendinu er hann sá þriðji sem vart verður við á rúmum tveimur vikum hér á landi. Tveir hafa verið felldir á Skaga í Skagafirði sem kunnugt er, einn á Þverárfjalli og annar við bæinn Hraun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×