Erlent

Dýrir vindlingar breyta tóbaksneyslu Bandaríkjamanna

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Bandaríkjamenn svala tóbaksþörf sinni nú í æ ríkari mæli með neftóbaki og smávindlum auk þess sem sístækkandi hópur vefur sína eigin vindlinga. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem framkvæmd var við Harvard-háskóla. Kveikjan að þessu breytta neyslumynstri er auðfundin en þar fer síhækkandi verð á vindlingum.

Að sögn Greg Connolly, sem leiðir rannsóknina, er þessi breyting þrándur í götu þeirrar baráttu gegn reykingum sem varð til þess að vindlinganotkun hefur dregist saman um 18% síðan árið 2000. Þetta skýrir hann með því að skattlagning er hóflegri á neftóbak en vindlinga auk þess sem notkun þess er á fæstum stöðum bönnuð innandyra eins og reykingar eru nú víða.

Telur Connolly þessar staðreyndir tala sínu máli um nauðsyn þess að leggja sama skatt á allar tóbaksafurðir. Í rannsókn Harvard-manna kemur fram að Bandaríkjamenn hafi keypt 21,1 milljarð vindlingapakka árið 2000 sem hafi svo dregist saman í 17,4 milljarða árið 2007. Á sama tímabili hafi notkun hinna hagkvæmari afurða sem hér eru nefndar aukist svo að það nemur 1,1 milljarði vindlingapakka

„Það lítur því út fyrir að þriðjungur samdráttarins í vindlingareykingum hafi orðið að engu við notkun annarra afurða tóbaks," sagði Connolly. „Hvort sem það er vegna verðlagningar á vindlingum eða þess að neytendur telja hinar leiðirnar heilsusamlegri lítur út fyrir að notkunin sé að færast frá vindlingum yfir í hinar afurðirnar. Það er ekki útilokað að við höfum ofmetið þau áhrif sem allar herferðirnar hafa haft á heildartóbaksneysluna í landinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×