Innlent

Kvika á ferð undir Upptyppingum

Niðurstöður rannsóknarleiðangurs jarðvísindamanna að Upptyppingum og Álftadalsdyngju í síðasta mánuði staðfesta svo ekki verður um villst að þar undir er kvika á uppleið.

Það var í febrúar í fyrra sem vísindamenn tóku fyrst eftir óvenjulegum atburðum í jarðskorpunni norður af Vatnajökli, fjarri mannabyggðum, þegar jarðskjálftavirkni hófst suður af Herðubreið við Upptyppinga. Skjálftarnir hafa síðan færst til norðausturs og mælast nú undir Álftadalsdyngju. Það sem vakið hefur sérstaka athygli er að skjálftarnir hafa verið að færast ofar upp í jarðskorpuna og nær yfirborði. Þannig mældust þeir fyrst á um átján kílómetra dýpi en eru nú á á ellefu kílómetra dýpi. Jarðvísindamenn fóru í síðasta mánuði á svæðið með þyrlu Landhelgisgæslunnar til að rannsaka landris með því að mæla færslur á GPS-mælipunktum. Halldór Geirsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir niðurstöðurnar staðfesta að þarna sé kvika á ferð.

Halldór segir allt eins líklegt að þessi þróun hætti og kvikan storkni áður en hún nái yfirborði. Ef þarna verði eldgos sé líklegast að það verði dyngjugos. Hann treysir sér ekki til að tímasetja hugsanlegt eldgos, það gæti hafist á morgun, eftir ár eða áratugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×