Billy Graham, hinn litríki þjálfari breska hnefaleikarans Ricky Hatton, hefur ákveðið að hætta störfum af heilsufarsástæðum.
Graham hafði þjálfað Hatton síðustu 11 árin og hann var maðurinn sem uppgötvaði hæfileika Hatton í Salford æfingastöðunni í Manchester.
Það verður aðstoðarmaður Graham, Lee Beard, sem mun þjálfa Hatton fram að næsta bardaga hans sem verður við Paulie Malinaggi í nóvember nk.
"Þetta er sorgardagur því þeir hafa verið saman svo lengi. Billy verður minnst sem eins besta þjálfarans í bransanum, en heilsa hans hefur ekki verið upp á sitt besta undanfarið og því var það honum alltaf erfiðara og erfiðara að þjálfa Ricky," sagði faðir hnefaleikarans, Ray Hatton.