Enski boltinn

John Terry mun ná sér

John Terry brotnaði niður eftir tapið í gær
John Terry brotnaði niður eftir tapið í gær AFP

Félagar John Terry í enska landsliðinu eru á því að varnarmaðurinn muni ná sér eftir áfallið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í gær þar sem hann klúðraði vítaspyrnu sem hefði geta fært Chelsea Evrópumeistaratitilinn.

Það var Cristiano Ronaldo sem varð fyrsti maðurinn til að misnota spyrnu í vítakeppninni í gær og það kom í hlut Terry að taka fimmtu spyrnu Chelsea.

Hann rann á blautu grasinu og skaut boltanum í stöngina. Það var svo Nicolas Anelka sem færði United titilinn með því að láta Edwin van der Sar verja frá sér í bráðabananum.

Frank Lampard segist þess fullviss að Terry muni ná sér eftir áfallið í gær, enda sé hann sterkur einstaklingur.

"Þetta er mjög erfitt og ég veit hvernig honum líður. Það er ekki margt sem þú getur sagt við menn sem lenda í þessu. Ég sagði honum að gleyma því ekki að þetta væri bara fótbolti. Hann var nógu sterkur til að gangast við að taka spyrnuna, en honum er væntanlega lítil huggun í að heyra neitt svoleiðis núna. Hann rann þegar hann tók spyrnuna, en það breytir engu fyrir mig. John er samt fyrsti maðurinn sem ég vil hafa við hlið mér á knattspyrnuvellinum," sagði Lampard.

Rio Ferdinand hjá Manchester United og félagi Terry í enska landsliðinu, fann líka til með félaga sínum.

"Auðvitað er ég ánægður að við höfum unnið, en það er alltaf erfitt að hugsa til hins liðsins. John er góður vinur minn og maður vill ekki sjá neinn klikka svona á víti. Einhver varð hinsvegar að tapa vítakeppninni og sem betur fer voru það þeir," sagði Ferdinand.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×