Lífið

Býður Soda Stream, krónur og innrömmuð hlutabréf fyrir niðurfellingu skulda

Hlutabréf í Kaupþingi eru meðal þess sem Ásta býður fyrir niðurfellinguna.
Hlutabréf í Kaupþingi eru meðal þess sem Ásta býður fyrir niðurfellinguna.
„Það er einhver áhugi, en það hefur enginn boðist til að gera þetta fyrir mig ennþá," segir Ásta Jónasdóttir, húsmóðir. Hún setti svohljóðandi smáuglýsingu í Fréttablaðið í dag:

„Óska eftir niðurfellingu skulda. Er að leita að bankastarfsmanni sem er fær í tæknilegum mistökum og getur fellt niður óhagstæðar og íþyngjandi skuldir. Finnst óþægilegt að taka ábyrgð á eigin skuldum og vil losna við þær. Í boði er hæfilegt magn af íslenskum krónum, SodaStream tæki og innrömmuð hluthafaskírteini í FL-Group og Kaupþingi. S:6912021"

Ásta segir auglýsinguna nú aðallega vera ætlaða sem grín, en einnig létta ádeilu á valdhafana og bankaelítuna. Lánið sem Ástu langar að fá fellt niður er reyndar bara hefðundið húsnæðislán, sem henni finnst meira en eðlilegt að sé fellt niður úr því það virðist hægt að grípa til þess ráðs hjá öðrum skuldurum.

Hún segist ekki viss hvort það sem hún býður fyrir greiðann - Soda Stream tæki, innrömmuð hlutabréf og krónur - sé nægileg greiðsla fyrir niðurfellinguna. Töluverður áhugi hafi þó verið á Soda Stream tækinu. „Það hefur verið boðið í það. Það er greinilega mikil eftirspurn eftir Soda Stream tækjum," segir Ásta. „Ég er farin að efast um það, það er nefnilega ennþá í notkun."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.