Innlent

Meirihluti borgarfulltrúa vill ekki prófkjör - Oddvitinn segir ákvörðunina hjá flokksmönnum

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borginni, segir það alfarið í höndum fulltrúaráðs flokksins í Reykjavík og flokksmanna í borginni hvernig valið verður á lista fyrir næstu kosningar. Það sé ekki rétt að hún hafi talað fyrir uppstillingu á fundi með stjórnum hverfafélaga í síðasta mánuði, eins og Vísir greindi frá fyrr í dag.

Hún telur að heimildarmaður Vísis á fundinum hljóti að hafa misskilið umræður um efnið. Gallar og kostir prófkjörs voru ræddir á fundinum en hann var lokaður og efni hans trúnaðarmál.

Vísir hefur heimildir fyrir því að meirihluti borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks telji ekki heppilegt að fara í prófkjör fyrir næstu kosningar.Hanna Birna ítrekar að ákvörðunin sé fulltrúaráðsins.

"Mín skoðun í þessu máli er sú að það sé alfarið í höndum fulltrúaráðs flokksins í Reykjavík og flokksmanna í borginni hvernig valið verður á lista. Ég hef ekki á því neina skoðun og mun una þeirri niðurstöðu með hvaða hætti stillt verður upp á listann," segir Hanna Birna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×