Innlent

Hanna Birna næsti borgarstjóri

Hanna Birna Kristjánsdóttir yrði næsti borgarstjóri Reykjvíkinga ef landsmenn fengju að ráða. Hátt í sextíu prósent þeirra styðja Hönnu Birnu í nýrri könnun Capacents Gallups fyrir Stöð 2.

Könnunin var framkvæmd dagana 22. til 26. maí. Í úrtakinu voru tæplega 1100 manns á aldrinum 16 til 75 ára á landinu öllu. Svarhlutfall var 53,3%.

Spurt var: Hvern finnst þér að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að velja sem næsta borgarstjóra Reykjavíkur?

Hanna Birna Kristjánsdóttir ber höfuð og herðar yfir aðra sem koma til greina að mati kjósenda. Rúm 57% vilja að hún setjist í borgarstjórastólinn fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Næstur á blaði er Gísli Marteinn Baldursson - með einn fimmta af stuðningi Hönnu Birnu - eða rösk ellefu prósent.

Þá finnst nokkuð stórum hópi að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að velja Samfylkingarmanninn Dag B. Eggertsson, eða liðlega 8 prósent.

Tæp sex prósent vilja Júlíus Vífil Ingvarsson - en innan við fimm prósent vilja fyrrverandi borgarstjóra, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, aftur í þann stól.

Hanna Birna er því með ríflega tífalt meiri stuðning í borgarstjórastólinn en leiðtogi flokksins í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×