Erlent

Helmingur hákarlastofna heimsins í útrýmingarhættu

Ný rannsókn leiðir í ljós að um helmingur af hákarlastofnum heimsins eru í útrýmingarhættu þar af eru ellefu stofnar í bráðri hættu á að deyja út.

Samkvæmt hákarlasérfræðingum við stofnunina World Conservation Union verða hákarlar verulega fyrir barðinu á ofveiði á fiskistofnum þar sem þeir fjölga sér hægt.

Rannsóknin sem hér um ræðir náði til 21 tegundar af hákörlum og skötufiskum. Í ljós kom að helmingur þeirra er í útrýmingarhættu og verst er ástandið hvað djöflaskötuna varðar en stofn hennar hefur minnkað um helming á undanförnum tíu árum.

Sérfræðingarnir segja að hákarlar hafi verið aukaafli hjá bátum sem veiða túnfisk og sverðfisk. Nú þegar túnfisk- og sverðfiskstofnanir eru að minnka vegna ofveiði hafa útgerðirnar sem gera út á þær veiðar í auknum mæli snúið sér að hákarlaveiðum.

Afurðin af þeim veiðum eru einkum uggarnir á hákörlum sem eru eftirsótt matvara í Asíu. Og með aukinni velmegun landa í þeirri álfu hefur eftirspurnin eftir uggunum margfaldast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×