Erlent

Sólin ekki öll þar sem hún er séð

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Spacetoday.org

Vísindamenn við Kaliforníuháskóla göptu af undrun þegar þeir skoðuðu myndir af sólinni frá nýju könnunarfari NASA og áttuðu sig á því að hún breytir lögun sinni reglubundið.

Eftir að hafa legið yfir myndum af sólinni urðu þeir Martin Fivian og Hugh Hudson við Kaliforníuháskólann í Berkeley að játa að sólin þenst út og dregst saman reglubundið á eins konar 11 ára tíðahring ef svo mætti segja. Það er löngu vitað að sólin er hægt og bítandi að þenjast út en hér er um annað fyrirbæri að ræða.

Á ákveðnum tíma þegar sprengivirkni sólarinnar er hvað mest lengist miðbaugur hennar um eina 13 kílómetra en dregst svo saman aftur að því loknu. Á hápunkti þessarar þenslu myndast eins konar ólétta sem gerir það að verkum að sólin hverfur frá almennri kúlulögun sinni þegar miðbaugur hennar verður áberandi lengri en línan sem liggur um póla hennar.

Að þessu loknu færist hún í eðlilegt horf á ný. Þetta ferli er unnt að greina með myndum frá farinu RHESSI sem stendur einfaldlega fyrir Reuven Ramaty High Energy Solar Spectroscopic Imager. Hvað annað?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×