Viðskipti innlent

Landsbankinn hagnaðist um 40 milljarða króna

Landsbankinn hagnaðist um 39,9 milljarða krónur á öllu síðasta ári samanborið við 40,2 milljarða krónur í hitteðfyrra. Þeir Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson, bankastjórar Landsbankans, segja báðir afkomuna góða og stöðu bankans sterka. Það skapi bankanum tækifæri í þeim óróleika sem hafi verið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Hagnaður bankans fyrir skatta og gjöld nam 45,6 milljörðum króna á síðasta ári samanborið við 44,7 milljarða í hitteðfyrra. Þar af nam hagnaðurinn á fjórða ársfjórðungi 4,9 milljörðum króna, samanborið við 14 milljarða á síðasta fjórðungi 2006.

Þá segir ennfremur í uppgjörinu að bankinn sé með engar áhættuskuldbindingar sem tengjast skuldabréfavafningum í útlánasafni sínu.

Í uppgjörinu kemur fram að lausafjárstaða bankans sé sterk og hafi numið níu milljörðum evra, jafnvirði rúmra 863,6 milljarða íslenskra króna, um síðustu áramót.

Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, segir stöðu bankans sterka, ekki síst vegna góðrar lausafjárstöðu og vegna vaxtar í erlendri innlánastarfsemi.

Halldór bætir því við að Landsbankinn hafi dregið úr markaðsáhættu, útlánasafnið sé vel áhættudreift og að fjármögnunarhlið bankans sé sterk.

Uppgjör Landsbankans

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×