Innlent

Vilhjálmur bláþráðurinn eða haldreipið sem meirihlutinn hangir á

MYND/Valli

„Ég held að ástæðan fyrir því að Vilhjálmur nýtur trausts sexmenninganna sé sú að hann er tengingin við Ólaf F. Magnússon í núverandi meirihluta borgarinnar. Menn verða að meta hvort hann sé sá bláþráður eða haldreipi sem heldur meirihlutanum saman," segir Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, um nýjustu vendingar í borgarpólitíkinni.

Eins og fram hefur komið greindi Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borginni, frá því á blaðamannafundi í Valhöll í dag að hann hygðist ekki hætta sem borgarfulltrúi þrátt fyrir harða gagnrýni að undanförnu tengda REI-málinu. Hann vildi hins vegar ekki gefa upp hvort hann hygðist setjast í stól borgarstjóra eftir ár eins og samkomulag sjálfstæðismanna og F-lista gerir ráð fyrir.

Aðspurður um stöðuna í borgarmálunum um þessar mundir sagði Óskar að ástandið væri óþolandi fyri alla starfsmenn borgarinnar og hið pólitíska umhverfi. Aðspurður hvort hann teldi að atburðirnir myndu hafa áhrif á núverandi meirihlutasamstarf sagðist Óskar ekki treysta sér að spá fyrir um hversu lengi það myndi endast. „Er á meðan er," sagði Óskar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×