Erlent

Allar líkur á að geimfarið Phoenix á Mars sitji á ísbreiðu

Allar líkur eru á því að geimfarið Phoenix á Mars sitji á ísbreiðu. Síðustu ljósmyndir sem farið hefur sent frá sér benda til að svo sé.

Vísindamenn bandarísku geimferðarstofnunarinnar NASA telja að þegar Phoneix kom til lendingar á Mars hafi efsta lag jarðvegsins undir því fokið á brott í útblæstrinum frá vél geimfarins.

Myndirnar sem NASA hefur birt opinberlega sýna hvíta flekki undir geimfarinu. Búið er að virkja vélmennisarminn um borð í geimfarinu og er verið að prófa hann núna.

Sérstök sjálfvirk rannsóknarstofa er um borð í geimfarinu og segir NASA að bráðlega muni vélmennisarmurinn verða tilbúinn til að moka prufusýnum úr jarðveginum inn í hana. Þá kemur í ljós hvort flekkirnir undir geimfarinu eru ís eða ekki.

Annars er höfuðmarkið geimfarins að rannsaka landfærðisögu Mars og leita að hugsnlegum ummerkjum um líf eða ummerkjum sem gefa til kynna að líf geti þrifist á Mars.

Ef ís finnst á Mars eykur það stórum líkurnar á að líf hafi þrifist eða geti þrifist á þessum næsta nágranna okkar í sólkerfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×