Innlent

Ríkið greiði Impregilo rúman milljarð

Gianni Porta verkefnisstjóri Impregilo á Íslandi.
Gianni Porta verkefnisstjóri Impregilo á Íslandi.

Impregilo á Íslandi stefndi íslenska ríkinu vegna endurgreiðslu á opinberum gjöldum. Dómur féll í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Niðurstaðan er sú að íslenska ríkið þarf að greiða fyrirtækinu um 1.230.000.000 íslenskra króna.

Skuldir íslenska ríkisins við verktakafyrirtækið nálgast um tvo milljarða króna en þar af er hálfur milljarður vegna dráttarvaxta. Lögmaður Impregilo sagði við Vísi fyrr á þessu ári að skattgreiðendur sætu uppi með tapið.

Hæstiréttur hafði áður úrskurðað að ríkinu bæri að endurgreiða Impregilo opinber gjöld vegna starfsmanna á vegum erlendra starfsmannaleiga.

Það gerði ríkið hins vegar ekki og höfðaði Impregilo mál í kjölfarið þar sem krafist var endurgreiðslu upp á 1,2 milljarða króna, auk 300 milljóna í dráttarvexti.

Niðurstaða héraðsdóms er eins og fyrr segir að ríkinu beri að greiða fyrirtækinu 1.230.708.381 ásamt vöxtum. Auk þess þarf ríkið að greiða málskostnað upp á fjórar milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×