Erlent

NATO mun verja Eystrasaltsríkin

Óli Tynes skrifar

NATO ríkin styðja Bandaríkin í því að sýna framá að bandalagið sé reiðubúið að verja Eystrasaltsríkin þrjú gegn hverskonar árás Rússa. Óróa gætir í Eistlandi, Lettlandi og Litháen eftir innrás Rússa í Georgíu. Ríkin studdu öll Georgíu.

Í viðtali við Financial Times í dag segir Kurt Volker, fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá NATO að bandalagið verði að senda þau skilaboð með heræfingum og viðbúnaðaráætlunum að það muni styðja Eystrasaltsríkin.

Volker segir að Eistland, Lettland og Litháen væru fullgild bandalagsríki og fimmta grein NATO sáttmálans gildi fyrir þau. Fimmta greinin kveður á um að árás á eitt bandalagsríki sé árás á þau öll og að þau muni öll koma til hjálpar.

NATO hefur lofað Georgíu aðild í framtíðinni en fimmta greinin nær ekki til landsins ennþá.

Talsmaður NATO sagði að Bandalagið væri fullfært um að verja öll aðildarríkin ef til þess kæmi. Það yrði gert hratt og hiklaust. Talsmaðurinn sagði ennfremur að víðtækur stuðningur væri við ummæli Volkers.

Hann bjóst við að málið yrði rætt á óformlegum fundi varnarmálaráðherra NATO í Lundúnum í september.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×