Viðskipti erlent

Englandsbanki lækkar stýrivexti

Mervyn King, bankastjóri Englandsbanka, ásamt Gordon Brown, forsætisráðherra.
Mervyn King, bankastjóri Englandsbanka, ásamt Gordon Brown, forsætisráðherra. Mynd/AFP

Englandsbanki lækkaði stýrivexti um 25 punkta í dag og standa vextir nú í 5,0 prósentum. Bankastjórnin hefur verið undir miklum þrýstingi að koma til móts við fjárfesta og atvinnulífið með lækkun vaxta. Þá er sömuleiðis horft til þess að blása lífi í einkaneyslu sem hefur dregist saman samhliða verðlækkunum á fasteignamarkaði.

Vaxtaákvörðunin er í samræmi við spá Bloomberg-fréttaveitunnar en 52 af 61 fjármálasérfræðingi töldu líkur á að vextir yrðu lækkaðir. Aðrir töldu að þeim yrði haldið óbreyttum.

Bloomberg segir ljóst að bankastjórnin hafi ákveðið að horfa framhjá verðbólguvæntingum tímabundið í ljósi aðstæðna á mörkuðum. Þetta er svipað viðhorf og hjá bandaríska seðlabankanum sem hefur lækkað stýrivexti ört frá haustdögum í fyrra.

Breski seðlabankinn segir aðstæður á fjármálamörkuðum hafa versnað og séu erfiðir tímar framundan á lánsfjármörkuðum. Gangi hins vegar spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um 1,6 prósenta hagvöxt á árinu eftir muni það geta haldið verðbólgu niðri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×