Lífið

Jón Bjarki efstur í kjöri á hetju ársins hjá DV

Jón Bjarki Magnússon
Jón Bjarki Magnússon

Jón Bjarki Magnússon fyrrverandi blaðamaður DV henti handsprengju inn í bloggheima og fréttatíma gærdagsins. Upptaka af samtali hans og ritstjórans Reynis Traustasonar sem birt var í Kastljósi hefur vakið mikla athygli. Framferði Jóns Bjarka er umdeilt, sumir segja ósvífið hjá drengnum að hafa tekið ákvörðun um að birta tveggja manna samtal í sjónvarpi allra landsmanna. Aðrir líta á hann sem hetju.

Fyrrverandi vinnustaður Jóns Bjarka leitar nú að hetju ársins. Þar eru lesendur blaðsins beðnir um að senda nafn eða nöfn þeirra sem þeim finnst verðugir þess að bera nafnbótin Hetja ársins 2008, fyrir eitthvað sem viðkomandi afrekaði á árinu sem nú er senn á enda.

Og tilnefningarnar láta ekki á sér standa. Samkvæmt heimildum Vísis er Jón Bjarki ekki bara efstur heldur lang efstur í þessu kjöri. Tilnefningum með nafni hans hefur rignt yfir ritstjórnina og erfitt er að sjá að einhver sé að fara að skáka honum í þessu kjöri. Skilafrestur er til miðnættis 23.desember en niðurstaða kosningarinnar verður kunngjörð í kringum áramótin.

Þess ber þó að geta að sérstök dómnefnd sem nánar verður kynnt síðar mun velja úr innsendum tilnefningum.

Hægt er að senda tilnefningar á netfangið hetjaarsins@dv.is.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.