Erlent

Sannanir komnar fyrir því að vatn var á tunglinu

Bandarískir vísindamenn hafa fundið sannanir fyrir því að vatn var til staðar í iðrum tunglsins í árdaga. Þetta gæti kollvarpað kenningum um hvernig tunglið myndaðist.

Greint er frá þessu í nýjasta tölublaði tímaritsins Nature. Hingað til hefur verið talið að tunglið hafi myndast er önnur pláneta rakst á jörðina. Við áreksturinn hafi allt vatn á nýmynduðu tunglinu gufað upp.

En ný rannsókn Bandaríkjamannana sýnir að vatn hefur komið upp á yfirborð tunglsins í eldgosum fyrir um þremur milljörðum ára.

 

Bandarísku vísindamennirnir komust að þessu er þeir rannsökuðu hraunmola sem fluttir voru til jarðarinnar með Apollo-geimförnum sem lentu á tunglinu á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.

Ný tækni hefur gert það kleyft að rannsaka hraunmolana muna ítarlegar en gert var á sínum tíma og leiðir hún þetta í ljós. Bandaríkjamennirnir hafa sett fram þá kenningu að tunglið hafi innihaldið jafnmikið vatn og jörðin á sínum tíma og það sé jafnvel enn til staðar í einhverjum mæli við báða póla tunglsins.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×