Íslenska sundfólkið var aftur í miklu stuði á Smáþjóðaleikunum í dag þar sem tvö Íslandsmet og fjögur leikjamet voru sett.
Hrafnhildur Lúthersdóttir setti bæði nýtt Íslandsmet og leikjamet þegar hún vann í 200 metra bringusundi en Erla Dögg Haraldsdóttir varð í öðru sæti í greininni.
Annað Íslandsmet féll í 4x100 metra fjórsundi þar sem kvennasveitin skipuð þeim Hrafnhildi Lúthersdóttur, Sigrúnu Brá Sverrisdóttur, Jóhönnu Gerðu Gústafsdóttur og Ragnheiði Ragnarsdóttur, stórbætti Íslandsmetið í greininni um rúmar sjö sekúndur og setti um leið leikjamet.
Þá jafnaði Ragnheiður Íslandsmet sitt í 50 metra skriðsundi og setti leikjamet en Árni Már Árnason setti nýtt leikjamet í sömu grein.