Sport

Tók næstum því ranga beygju en setti nýtt met

Sindri Sverrisson skrifar
Tigst Assefa var auðvitað himinlifandi eftir magnað hlaup sitt í Lundúnum í gær.
Tigst Assefa var auðvitað himinlifandi eftir magnað hlaup sitt í Lundúnum í gær. Getty/Karwai Tang

Tigst Assefa frá Eþíópíu setti heimsmet í Lundúnamaraþoninu í gær þegar hún kom fyrst í mark í keppni kvenna á aðeins tveimur klukkustundum, 15 mínútum og 50 sekúndum.

Þetta er ekki besti maraþontími sögunnar hjá konum heldur er um að ræða besta tíma sem náðst hefur í hlaupi þar sem aðeins konur eru meðal keppenda. Assefa hefur til að mynda sjálf hlaupið hraðar og átti heimsmetið áður en Ruth Chepng'etich frá Kenía sló henni við og er heimsmet hennar 2:09:56 klukkustundir.

Sigurtími Assefa í gær fer samt í sögubækurnar eins og fyrr segir en hún virtist þó ruglast örlítið þegar hún nálgaðist endamarkið og stefndi í ranga átt þegar brautarvörður beindi henni í rétta átt.

Þetta má einnig sjá á myndbandi af lokasprettinum hjá Assefu sem má sjá hér að neðan.

Assefa, sem fékk silfur á Ólympíuleikunum í París í fyrra, stakk Joyciline Jepkosgei af þegar um tíu kílómetrar voru eftir af hlaupinu í gær og endaði um þremur mínútum á undan henni. Ólympíumeistarinn Sifan Hassan frá Hollandi hlaut svo bronsverðlaunin.

Hjá körlunum kom Sebastian Sawe frá Kenía fyrstur í mark á 2:02:27 klukkutímum. Þetta var í fyrsta sinn sem þessi 29 ára kappi tekur þátt í Lundúnamaraþoninu en hann vann einnig Valencia-maraþonið í desember síðastliðnum á nánast nákvæmlega sama tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×