Fótbolti

Hólmfríður kvaddi með tveimur mörkum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Hólmfríður Magnúsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Stefán
Hólmfríður Magnúsdóttir lék í dag kveðjuleik sinn með Kristianstad er lokaumferð sænsku úrvalsdeildarinnar fór fram í dag.

Kristianstad vann 5-2 sigur á botnliði Stattena á útivelli en þetta var sjötti sigur liðsins á tímabilinu.

Liðið endaði í þriðja neðsta sæti deildarinnar með átján stig en Piteå og Stattena féllu í B-deildina.

Erla Steina Arnardóttir kom Kristianstad í 3-1 í leiknum í upphafi síðari hálfleiks. Hólmfríður kom svo inn á sem varamaður á 60. mínútu og skoraði næstu tvö mörk leiksins. Hún hefur ákveðið að leika í Bandaríkjunum á næsta tímabili.

Guðný Björk Óðinsdóttir var einnig í byrjunarliði Kristianstad í dag.

Dóra Stefánsdóttir var ekki í leikmannahópi Malmö sem vann 1-0 sigur á Sunnanå í dag.

Edda Garðarsdóttir lagði upp annað marka Örebro í 2-0 sigri á nýkrýndum meisturum Linköping. Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir var ekki í leikmannahópi Örebro.

Malmö varð í þriðja sæti deildarinnar með 45 stig og Örebro í því fimmta með 42 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×