Viðskipti erlent

Fyrrverandi bankastjóra Hróarskeldubanka stefnt

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stjórn Hróarskeldubanka hefur tilkynnt að bankinn muni stefna Niels Valentin Hansen, sem stjórnaði bankanum áður en hann varð þjóðnýttur fyrir um ári síðan vegna lausafjárvandræða.

Í skýrslu sem stjórn bankans hefur látið gera er Hansen sagður ábyrgur fyrir vandræðum bankans. Hann var forstjóri bankans á árunum 1978-2007, en hann hefur vísað frá sér allri ábyrgð á vandræðum bankans, samkvæmt frásögn Copenhagen Post.

Auk þess sem bankinn krefst skaðabóta frá Hansen sér hann einnig fram á 18 mánaða fangelsi fyrir að hafa í apríl 2007 tekið ákvörðun um að auka hlutafé í bankanum með því að láta Hróaskeldubanka kaupa 22% hlut í sjálfum sér. Fyrrverandi stjórn bankans og endurskoðendafyrirtækinu Ernst & Young verður einnig stefnt vegna gagnrýniverðra ákvarðana í tengslum við rekstur bankans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×