Íslenska karlalandsliðið í körfubolta skellti því danska ytra í kvöld. Lokatölur 54-66 fyrir Ísland en leikurinn var liður í B-deild Evrópukeppninnar.
Íslenska liðið var sterkara allan tímann og leiddi frá upphafi. Staðan eftir fyrsta leikhluta 16-23.
Ísland var áfram betra liðið í öðrum leikhluta en Danir áttu ágætan endasprett og munurinn aðeins sjö stig í hálfleik, 28-35.
Danir héldu áfram að þjarma að liðinu í upphafi síðari hálfleiks. Best náðu Danir að minnka muninn í tvö stig.
Þá sagði íslenska liðið hingað og ekki lengra. Tók aftur frumkvæði í leiknum og leiddi með átta stigum eftir þrjá leikhluta, 44-52.
Ísland var síðan mun betra liðið í lokaleikhlutanum og innbyrði sanngjarnan tólf stiga sigur, 54-66.
Stig Íslands: Jón Arnór Stefánsson 21, Logi Gunnarsson 13, Fannar Ólafsson 10, Páll Axel Vilbergsson 10, Hörður Axel Vilhjálmsson 5, Helgi Már Magnússon 4, Pavel Ermolinskij 3.