Lífið

Ítrekun frá Mugison

Mugison ítrekar að efnið sé fáránlega gott. fréttablaðið/Völundur
Mugison ítrekar að efnið sé fáránlega gott. fréttablaðið/Völundur
„Mér fannst þetta sniðugt því maður er alltaf að fá ítrekanir inn um lúguna hjá sér – þar sem er verið að biðja mann um eitthvað aftur. Þetta er náttúrlega allt gamalt efni á plötunni – þannig séð. Maður er að reyna að vera svona Baggalúts-sniðugur,“ segir tónlistarmaðurinn Örn Elías Guðmundsson – Mugison.

Mugison sendir á næstunni frá sér plötuna Ítrekun. Platan inniheldur úrval af lögum Mugisons í útgáfum sem hafa orðið til á tónleikum um allan heim undanfarin misseri. Rokkskrímslin Addi og Guðni úr Dr. Spock, hljómborðssnillingurinn Davíð Þór og hinn fingrafimi Pétur Ben skipuðu hljómsveit Mugisons og tóku plötuna upp með honum í janúar á þessu ári.

„Lögin hafa spilast til einhvern veginn. Það er fyndið hvernig lög spila sig sjálf í svona öðruvísi útgáfur,“ segir Mugison. „Mér fannst nauðsynlegt að eiga útgáfurnar þannig að við fórum í stúdíó um daginn og lékum okkur aðeins. Svo sat ég á þessu. Svo fór ég að mixa og fattaði að þetta er alveg fáránlega gott efni og langaði að gefa það út.“

Mugison fer yfirleitt óhefðbundnar leiðir í umslagshönnun og hefur fengið heilu bæjarfélögin með sér í föndrið. Ítrekun er engin undantekning. „Ég ætla að stimpla koverið með ítrekun,“ segir hann. „Platan verður eiginlega í umslagi – svolítið Intrum-leg pæling. En ekki eins alvarleg og Intrum og miklu ódýrari. Ég ætla að hafa plötuna eins og ódýra og hægt er.“ - afb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.