Innlent

Árni Páll endurskoði skerðingu á fæðingarorlofi

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
BSRB krefst þess að sparnaðarkrafa sem Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, hefur boðað að verði lögð á fæðingarorlofssjóð verði endurskoðuð. Kvenréttindafélag Íslands varar við neikvæðum áhrifum fyrirhugaðrar skerðingar á stöðu foreldra á vinnumarkaði, sérstaklega kvenna.

Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi verða lækkaðar úr 350 þúsund krónum á mánuði í 300 þúsund, samkvæmt drögum að frumvarpi sem Árni Páll kynnti í ríkisstjórn í fyrradag. Samkvæmt því verða bæturnar aldrei hærri en 75% af launum þess sem tekur fæðingarorlof og er með laun yfir 200 þúsundum í stað 80% áður. Hins vegar verði fæðingarorlofstíminn sá sami og áður.

Stjórn BSRB segir að íslenska fæðingarorlofskerfið hafi vakið mikla athygli hjá öðrum þjóðum og horft hafi verið til þess sem fyrirmynd. „Ef sparnaðarkröfunni verður haldið til streitu er verið að hverfa áratugi aftur í tímann og vega að þeirri jafnréttishugsun sem í kerfinu felst."

Stjórn Kvenréttindafélags Íslands telja að færri feður muni taka fæðingarorlof vegna fyrirhugaðrar skerðingar. „Rúmlega 90% íslenskra feðra hafa nýtt sér rétt til orlofstöku, sem þótt hefur til fyrirmyndar. Virk aðkoma feðra að umönnun ungbarna sinna er ein af frumforsendum þess að vænta megi varanlegs árangurs í baráttunni fyrir jafnri stöðu kvenna og karla. Kvenréttindafélag Íslands telur því að þessar aðgerðir séu verulegt skref afturábak í jafnréttisbaráttu kynjanna," segir í ályktun stjórnar Kvenréttindafélags Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×