Innlent

Telur auglýsinguna brjóta gegn lögum

frá fólkinu í næsta húsi Garðlist sendi íbúum á höfuðborgarsvæðinu bréf í vikunni.
frá fólkinu í næsta húsi Garðlist sendi íbúum á höfuðborgarsvæðinu bréf í vikunni.

Neytendastofa er með til skoðunar auglýsingu frá Garðlist þar sem „fólkið í næsta húsi“ skrifar bréf til nágrannans. Framan á auglýsingunni, neðst í horninu vinstra megin, stendur smáum stöfum „Auglýsing frá Garðlist“.

Í bréfinu er bent á að íbúarnir í húsinu hafi verið misduglegir að sinna garðverkunum og því falið fyrirtæki að sjá um garðverkin. „Sigga á 3. hæðinni talaði um að hún vildi hafa meiri tíma með fjölskyldunni þegar hún átti á annað borð frí, í stað þess að standa sveitt vaktina í garðinum. Aðrir íbúar voru henni svo sannarlega sammála,“ segir í bréfinu.

Jóhannes Gunnarsson, formaður siðanefndar SÍA, telur að auglýsingin brjóti gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu þar sem ekki skuli leika vafi á að um auglýsingu sé að ræða. Hann fordæmir auglýsingar af þessu tagi. „Þarna er verið að setja þetta inn í annan búning en hreina auglýsingu. Þar af leiðandi tel ég þetta brot á þessum lögum. Neytendastofa á að framfylgja því að farið sé að lögum,“ segir hann.

Brynjar Kjærnested, framkvæmdastjóri Garðlistar, segir að auglýsingin hafi fengið jákvæð viðbrögð. „Við erum ekkert að skrifa í nafni annarra, við erum að vekja athygli á okkar þjónustu.“

- ghs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×